top of page
Ferli ökunáms til almennra ökuréttinda

Ökunám til almennra ökuréttinda getur hafist við 16 ára aldur. Ökunámið skiptist í bóklegt nám í samtals 25 kennslustundir (Ökuskóli 1, 2 og 3). Ökuskírteini er í fyrsta lagi gefið út á 17 ára afmælisdegi viðkomandi.

 

Fyrsta skrefið er að nemandinn, eða foreldrar/forráðamenn hans, hafi lögræðisaldri ekki verið náð, velja ökukennara og setja sig í samband við hann. Til að hefja ökunámið þarf nemandinn að sækja sjálfur um ökuskírteini (námsheimild) til sýslumanns með því að fylla út umsókn á vefsíðunni island.is Þegar rafræna umsóknin hefur verið send inn, þarf nemandinn að mæta í eigin persónu á næstu skrifstofu sýslumanns og skila inn passamynd á ljósmyndapappír að stærðinni 35x45mm, með einlitum bakgrunni, ásamt því að gefa undirritun.

Þegar námsheimildin hefur verið veitt byrjar nemandinn verklegt ökunám hjá ökukennaranum sínum. Þá sækir nemandinn bóklegt vefnám í Ökuskóla 1 (Ö1) samhliða verklega náminu (12 kennslustundir). Hann ræður sjálfur hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig. Í Ö1 er farið yfir grundvallaratriði varðandi skilning á umferðinni, helstu umferðarreglur, umferðarmerki, umferðarsálfræði og þá eru verkefni unnin.

 

Það þarf að lágmarki 10 ökutíma til þess að ökunemi geti farið í æfingaakstur. Ökukennari metur hvenær nemandinn er tilbúinn og staðfestir það í rafræna ökunámsbók hans. Til að mega keyra með öðrum en ökukennaranum þarf leiðbeinandi nemandans að sækja rafrænt um heimild til að gerast leiðbeinandi við æfingaaksturLeiðbeinandinn í æfingaakstrinum þarf að hafa náð 24 ára aldri, haft ökuréttindi í 5 ár og ekki verið sviptur ökuréttindum sl. 12 mánuði. Rétt er að taka fram að það er ekki skylda að fara í æfingaakstur og hægt er að ljúka ökunáminu án þess að hann fari fram.

 

Samhliða æfingaakstrinum sækir nemandinn bóklegt vefnám í Ökuskóla 2 (Ö2) (10 kennslustundir). Hann ræður sjálfur hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig. Ef nemandinn ákveður að sleppa æfingaakstrinum, fer Ökuskóli 2 fram samhliða áframhaldandi verklegu námi með ökukennaranum.

Nemandinn sækir verklegt/bóklegt námskeið í Ökuskóla 3. Skilyrði er að Ö1 og Ö2 og að minnsta kosti 10 verklegum kennslustundum hjá ökukennaranum sé lokið til að geta tekið þátt, en nemandinn ber sjálfur ábyrgð á að skrá sig. Á námskeiðinu er markmiðið að neminn átti sig á hversu auðvelt og fyrirvaralaust er hægt að missa stjórn á bifreið, til dæmis, í hálku eða lausamöl. Einnig er fjallað sérstaklega um öryggis- og verndarbúnað bifreiða, áhrif áfengis og annarra vímugjafa á aksturshæfni og áhrif þreytu á aksturshæfni. Ekkert próf er á námskeiðinu, en krafist er að nemendur séu virkir í tímunum. Ökuskóli 3 er við Álfhellu 3 í Hafnarfirði.

 

Nemandinn tekur síðan skriflega ökuprófið hjá Frumherja, sem annast framkvæmd ökuprófa samkvæmt samningi við Samgöngustofu. Heimilt er að taka það allt að 2 mánuðum fyrir 17 ára afmælisdaginn. Prófið er tekið á spjaldtölvur og samanstendur af 50 fullyrðingum sem svara á rétt eða rangt. Spurt er um efni sem nemandinn hefur lært í ökuskólunum og hjá ökukennaranum. Niðurstöður úr prófinu eru veittar strax að loknu prófi. Svara þarf 45 fullyrðingum rétt til að standast prófið. Próftíminn er 45 mínútur. Auk íslensku er, meðal annars, hægt að taka bóklega prófið á ensku, spænsku og pólsku.

 

Þegar nemandinn hefur staðist bóklega prófið, klárar hann verklegu ökutímana sem eru eftir og í þeim er hann undirbúinn undir verklega prófið, sem ökukennarinn sér um að panta. Nauðsynlegt er að hafa lokið að minnsta kosti 15 verklegum ökutímum til að fara í verklega prófið. Meðtaltal verklegra ökutíma er yfirleitt á bilinu 17-25. Heimilt er að taka verklega ökuprófið allt að 2 vikum fyrir 17 ára afmælisdaginn.

 

Framkvæmd verklega prófsins er með þeim hætti að það hefst á stuttu munnlegu prófi (5 spurningar). Spurt er um ýmislegt sem snertir ökutækið sjálft, til dæmis, ljós í mælaborði, stjórn- og öryggistæki og atriði varðandi viðhald. Mikilvægt er að standast munnlega prófið með að minnsta kosti 60% árangri til að fara áfram í akstursprófið. Síðan er ekið um ákveðnar prófleiðir og prófdómari skráir niður plúsa og mínusa og reiknar síðan í lokin stig próftakans. Nauðsynlegt er að ljúka prófinu með að minnsta kosti 80 stig til að standast prófið. 

⚠️ Ath! Ekki mega líða meira en 6 mánuðir á milli bóklega og verklega prófsins.

 

Nemandinn fær útgefið bráðabirgðaökuskírteini þegar hann hefur staðist verklega ökuprófið. Það gildir í 3 ár. Að þeim tíma liðnum er hægt að sækja um fullnaðarskírteini.

 

Til að fá fullnaðarökuskírteini að 3 árum liðnum þarf að fara í akstursmat hjá ökukennara. Hægt er að framkvæma akstursmatið eftir aðeins 12 mánuði ef engir refsipunktar eru skráðir í ökuferilsskrá á tímabilinu og fá með því fullnaðarökuskírteinið 2 árum fyrr en ella hefði verið. 

bottom of page